Það eru nokkur atriði sem eru að breytast um þessar mundir í starfsumhverfi hönnuða og umbrotsfólks. Þessar breytingar hafa mismikil áhrif á fólk eftir því hvernig verkefnum það er að sinna. Sumt sem ég ætla að nefna hefur verið boðað með mjög löngum fyrirvara en kemur þeim á óvart sem ekki hafa fylgst með eða eru einfaldlega orðnir ónæmir fyrir marg endurteknum tilkynningum.
Ég ætla að skipta þessari umfjöllun í aðskilda kafla sem munu birtast hér og í hverjum þeirra segi ég frá því sem mér líst best á að gera til þess að leysa málið – jafnvel með skítamixi, ef ekki býðst annað.
Fyrsta sem ég nefni er Hunspell fyrir þá sem eru með Apple-tölvur með sílikon örgjörva, M1 og M2. Þetta mál er leyst í bili með hjáleið sem má lesa um í greinum hér á undan.
Annað er að FontExplorer X hefur verið lagður af og því enginn stuðningur við það forrit lengur. Virkar fyrir flesta eitthvað áfram en margir hafa fundið forritið vera að molna niður í nokkurn tíma. Hvað er hægt að nota í staðinn.
Þriðja er að PostScript letur, Type1, virkar ekki lengur í Adobe forritum, InDesign og þeim. Aðvörun um þetta er búin að loða við líklega í þrjú ár eða meira. Margir eru með letur af þessari tegund og mörg af þeim eru ekki í Adobe safninu eða Google. Hvað gera Danir þá?
Fjórða málið er að núna eru aðeins þrjár litabækur (Color Books) í Adobe forritum í stað tíu áður. Það versta er að Solid Color Coated og Uncoated eru dottnir út, sem vísa í sérliti sem prentaðir eru með Pantone litum. Hvað er hægt að gera í því, án þess að stíga á tær leyfishafa?
Mál tvö: FontExplorer X.
Sumir muna eftir því að Linotype FontExplorer var í upphafi ókeypis forrit. Sem slíkt jafnaðist það á eða var betra en margt annað sem var á markaðnum svo sem Suitcase. Forritið þróaðist og varð stöðugra og fékk síðan verðmiða á sig. Aðeins hátt fannst mér alltaf fyrir hvern nýjan notanda en uppfærslur voru á hálfvirði. Ég hef alla tíð hælt þessu forriti og þeim möguleikum sem það bauð upp á. Sumt er ekki jafnað í neinu öðru forriti í þessum flokki svo ég viti. Til dæmis að geta valið skjal, látið FontExplorer skanna skjalið og segja til hvaða letur er í skjalinu og búa til sett með því letri.
Hvernig sem á því stendur sér Monotype (sem á núna Linotype) sér ekki fært að halda áfram að þróa þetta forrit, en hefur komið með aðra lausn sem ég prófaði um hríð. Ég ætla ekki að fjalla um þá lausn hér, en í stuttu máli líkaði mér ekki og fannst of dýrt.
Og hefst þá leitin að einhverju öðru til þess að taka við. Það ber að nefna fyrst að með Apple-tölvum kemur forritið Font Book sem gegnir þessu hlutverki en það er frekar frumstætt í meðförum og alls ekki fyrir þá sem þurfa að nota mikinn fjölda leturgerða.
Á vefnum the Sweet bits er ágætis grein þar sem er haldið utan um valkosti fyrir þá sem eru á Apple-tölvum. Listinn er ekki tæmandi en mér skilst að röðin ráðist af því hvað höfundinum þykir vænlegast.
- Typeface 3
- RightFont
- FontBase
- FontAgent
- Connect Fonts
- Webfont
- flipping typical
Forritin eru ýmist alveg ókeypis, ókeypis reynslutími eða alltaf ókeypis en með meiri möguleikum ef farið er í áskrift.
Ég hef verið að prófa þessi þrjú efstu og myndi setja FontBase í efsta sætið, RightFont í annað og Typeface 3 í þriðja.
- FontBase
- RightFont
- Typeface 3
Eins myndi ég kaupa áskrift að því sem ég veldi. Þessi þrjú eru með ágætis tengsl við Adobe forritin sem flestir eru að nota. Þetta er nauðsynlegt ef notuð eru önnur letur en þau sem Adobe býður upp á (18.000 eða svo).
Prufurnar halda áfram hjá greinarhöfundinum á The Sweet Bits og ég held áfram að leita þótt ég noti FontBase sem stendur. Svo kemur að því að ég reyni að skrifa um reynsluna því það eru margir sem vilja einhverja umsögn.