Gamall draumur, mjög gamall reyndar, er að rætast þessa dagana. Í stað þess að hönnuðir séu skjálfandi á beinunum við að bögglast með að litgreina myndir, oft í tómri óvissu, er þessi hluti vinnslunnar að færast aftur til prentsmiðjanna, þar sem fagfólk sér um hana. Við erum sem sagt að færa okkur úr CMYK verkflæði yfir í RGB verkflæði.

Hagræðið af þessu er óumdeilanlegt. Á teiknistofunum er núna hægt að nota sömu myndina í hvaða miðil sem er, hvort sem þau eiga að fara í dagblaðaprentun, glanspappír eða hinn sívinsæla Munken Lynx. Aðeins þarf að passa að hún sé í réttum litum á rétt stilltum skjá. Útkeyrslutæki prentsmiðjanna sjá svo um að myndin sé sett í CMYK liti eftir því sem við á.

Það er í sjálfu sér einstakt að hægt sé að gera svona breytingu á verkferlum á heilli þjóð. Það hefur svo sem gerst áður, til dæmis þegar við fórum að skila öllum verkum sem pdf. Sú væðing tók ekki langan tíma og heppnaðist einstaklega vel. En núna er staðið enn betur að verki. Fyrst eru prentsmiðjurnar undirbúnar, þá stærstu teiknistofurnar og aðrir sem þurfa á hjálp geta sótt námskeið. Meira og minna undir handleiðslu Ólafs Brynjólfssonar með bakstuðningi fagmanna úr bransanum og Samtökum iðnaðarins.

Hvað þarf til þess að setja upp RGB verkflæði?

Á vef Samtaka iðnaðarins er hægt að nálgast stilliskjöl til þess að geta byrjað. Jafnframt er heilmikið lesefni þarna sem allir ættu að rýna í. Allt mjög skýrt og klárt, nákvæmar lýsingar á hvert stilliskjölin eiga að fara og hvaða hlutverki þau gegna.

Ég er búinn að prófa þetta og mér finnst þetta frábært. Hérna er smá samantekt, á því sem gott er að hafa í huga þegar farið er út í þetta ferli. Mikið af þessu kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins en vonandi er eitthvað aukalegt sem gagnast ykkur.

01

Frumskilyrði fyrir RGB vinnsluflæðið er að skjárinn sé rétt litstilltur.

02

Myndir eru unnar með Adobe RGB (1998) stillingunni sem velst sjálfkrafa þegar SI_CS_Litastillingar.csf stillingin er valin. Þetta stilliskjal er geymt í /Library/Application Support/Adobe/Color/Settings.

Best er að nota Bridge forritið til þess að velja SI_CS_Litastillingar, því þá samræmast stillingarnar í öllum Adobe forritunum.

RGB myndir sem eru notaðar verða að hafa viðhengdan Adobe RGB (1998) prófíl. Þægilegt er að sjá hvaða prófíll er viðhengdur á opnum myndum í Photoshop með því að hafa stillt í vinstra horninu niðri þannig að Photoshop sýni prófílinn.

documentprofile

Preview forritið sem fylgir öllum mökkum er líka gott að nota ef skoða þarf hvaða prófíll er á tiltekinni psd eða jpg mynd eða myndum. Hentar ekki eps myndum.

Ef enginn eða rangur ICC prófíll er á mynd er hægt að hengja þann rétta á með því að fara í Edit > Assign Profile… í Photoshop og velja Adobe RGB (1998) eða Working RGB sem ætti að vera Adobe RGB (1998). Einnig má nota Save as… og vista myndina upp á nýtt með viðhengdum prófíl.

Ef CMYK myndir eru notaðar í bland eiga ekki að hafa viðhengdan prófíl en verða að vera litstilltar fyrir þann miðil sem prenta á í. Lang þægilegast er að halda sig alveg við RGB myndir.

RGB myndir gefa þannig mun meiri sveigjanleika því ekki þarf að hugsa um hvort efnið eigi að fara í dagblöð eða tímarit, svo nokkuð sé nefnt. Prentsmiðjan sér um að stilla verkið rétt.

03

Myndasnið sem hentar RGB verkflæði eru:

PSD Photoshop skjöl. Þau mega vera í lögum (layers) og þau mega innihalda Layer Comps. Þau mega vera með glærum bakgrunni (transparent background), sem er mikill kostur. Verða að vera með viðhengdan Adobe RGB (1998) litaprófíl. Psd myndir pakkast með svokallaðri „lossless“ pökkun sem er ekki eins mikil og í jpg.

JPG, pökkuð myndaskjöl með viðhengdum litaprófíl. Athuga að aðsend jpg myndaskjöl hafi réttan prófíl og skipta honum út ef hann er rangur. Jpg myndir pakkast mun betur en psd en leyfa hins vegar ekki glæran bakgrunn.

Photoshop PDF er enn eitt sniðið. Það sameinar kosti psd og jgp – leyfir glæran bakgrunn og pakkast með jpg pökkun.

Ekki EPS. Best er að hætta að nota eps myndir. Sjá neðar.

04

Pdf stillingin sem kemur frá Samtökum iðnaðarins er fín en hún er forstillt á 3 mm blæðingu og með skurðarmeknum. Lítið mál er að útbúa sér afbrigði af henni sem hentar kannski betur. Sem dæmi ef maður er stundum að búa til auglýsingar fyrir tímarit er nauðsynlegt að hafa blæðingu og skurðarmerki en fyrir dagblaðaauglýsingar þarf að taka hvoru tveggja af. Athugið að byggja á stillingunum frá Samtökum iðnaðarins.

Gott er að hafa þetta svona:

IS_PDF_Prentun_HQ_BleedTrim.joboptions Hágæða HQ pdf með blæðingu og skurðarmerkjum.

IS_PDF_Prentun_HQ_No-BleedTrim.joboptions Hágæða HQ pdf án blæðingar eða skurðarmerkja.

IS_PDF_Prentun_LQ_No-BleedTrim.joboptions Lággæða LQ pdf án blæðingar eða skurðarmerkja til þess að senda létt sýnishorn.

05

InDesign hentar mjög vel fyrir RGB verkflæði. Venjist því að nota Preflight í InDesign til þess að kanna hvort verkið uppfylli ekki skilyrði til útkeyrslu. Þar sést hvort myndir séu í réttum prófíl, réttum stærðum og upp­lausn ásamt öðrum upplýsingum svo sem um letur og margt fleira. Sjá grein sem ég skrifaði um undirbúning fyrir prentun.

Til þess að búa til pdf í InDesign er farið er í File > Export (File > Adobe PDF Presets er til að búa til nýjar stillingar eða breyta) og valinn sú pdf stilling sem við á. Sjálfsögð viðbót við nafnið á skjalinu ætti að vera HQ eða LQ eftir því hvort er um að ræða lág- eða hágæða skjal. Ekki er hægt að treysta á að stærð skjals segi til um gæðin.

06

Illustrator virkar fínt í RGB verkflæði þrátt fyrir það sem segir í gögnunum sem við fengum um RGB verkflæðið. Það sem þarf að hafa í huga er eftirfarandi:

Artboard, teikniplatan á að vera í stærð verksins.

Rammar utan um verk svo sem auglýsingu mega vera í sömu stærð en línan þá stillt á að hún verði fyrir innan miðlínu ferilsins, innan teikniflatarins. Þetta er gert með því að stilla í Stroke panelnum: Align Stroke to Inside. Einnig er hægt að gera það sem dæmi fyrir 1pt ramma: 210mm – 2pt í málsetningarreitunum.

Nota psd eða jpg myndir því þá þarf ekki að hugsa um Flatten Transparency lengur

Keyrum pdf beint út úr Illustrator með Save as… eða Save a Copy as… veljum Adobe PDF sem skjalsnið

Hættum að vista Illustrator eps skjöl og setja þau í Distiller. Psd og jpg myndir notaðar með tranparency í Illustrator strimlast ef Illustrator skjalið er svo vistað sem eps og pdf skjal búið til í Distiller.

07

Út með Eps! Eps sniðið er á hraðri útleið hvort sem er sem myndasnið fyrir Photoshop eða vistun á ­Illustrator skjölum og er upplagt að við notum þetta tækifæri til að koma okkur frá því. Það er ekki verið að segja að gangi yfir á einum degi. Eps hefur verið og er ágætt þar sem myndir eru ferkant­aðar og reynir ekki á glæran bakgrunn – en það er engu að síður að deyja út. Photohop og Illustrator grunnskjöl, psd og ai native, eru það sem koma skal enda fylgja svo margir auka kostir.

Einn stór kostur við að fara yfir í psd myndir og sleppa eps alveg úr ferlinu, er að við það klippast myndirnar ekki í ræmur í pdf með tilheyrandi hvítum línum þegar notað hefur verið transparency, drop shadow og fleira í þeim dúr. Flatten Transparency verður því óþarft.

Annað sem má nefna er að InDesign getur tekið inn psd, ai og pdf og geta þau skjöl verið í lögum og boðið upp á að velja hvaða lög eru opin, kveikja á Clipping Mask eða slökkva, notað glær svæði sem Clipping Mask og margt fleira.

Þótt við hættum almennt að gera eps úr Illustrator skjölum verður þó í huga að aðilar erlendis gætu enn verið í gamla tímanum og við verðum að taka tillit til þess. Best að kanna stöðuna eftir aðstæðum.

Vona að þetta auki hugrekkið.